Persónuvernd

Embla er raddstýrt app fyrir iPhone og Android snjall­síma og spjald­tölvur. Framleiðandi þess og ábyrgðar­aðili er Miðeind ehf., Fiskislóð 31, rými B/303, 101 Reykjavík.

Appið má sækja ókeypis í Apple App Store eða Android Play Store. Notandi getur hvenær sem er eytt appinu aftur út úr snjall­tæki sínu, og er hvattur til að gera það ef hán fellir sig ekki við þá upplýsinga­vinnslu og þá skil­mála sem hér er lýst.

Embla er ekki ætluð börnum yngri en 13 ára.

Embla tekur við ýmis konar fyrir­spurnum á talaðri íslensku, sendir þær til mið­lægs net­þjóns og miðlar svari til notanda með rödd sinni.

Þegar notandi sækir Emblu eða ræsir appið í fyrsta sinn er hán spurt hvort Embla eigi að fá að­gang að hljóð­nema snjall­tækisins og upp­lýsingum um stað­setningu notandans. Appið fær þann að­gang aðeins að gefnu leyfi notandans.

Meðan Embla er í for­grunni á skjá snjall­tækisins hlustar appið eftir því hvort notandinn segi “Hæ, Embla!”. Þá virkni má af­tengja í stillingar­skjá appsins. Sú hlustun hefur hvorki í för með sér að hljóð­gögn séu vistuð né að þau séu send frá snjall­tækinu. Þegar Embla greinir ávarpið “Hæ, Embla!”, eða þegar ýtt er á fyrir­spurnar­hnapp, byrjar appið að hlusta í gegn um hljóð­nema snjall­tækisins. Hlustun hættir þegar fyrir­spurn er lokið. Gefið er til kynna á skjá tækisins, og með hljóð­merki, þegar hlustun hefst og þegar henni lýkur. Hljóð­gögn sem berast meðan hlustað er eru send til net­þjóns Emblu til úr­vinnslu.

Fyrirspurnir sem berast til net­þjóns Emblu eru geymdar á texta­formi í gagna­grunni í allt að 30 daga, en þá er þeim eytt með sjálf­virkum hætti. Mið­eind áskilur sér þó rétt til að vinna töl­fræði­legar upp­lýsingar upp úr fyrirspurna­gögnum og geyma þær upp­lýsingar lengur, í því skyni að endur­bæta þjónustuna og greina hvernig hún er notuð.

Fyrir­spurnum fylgir IP-tala, stað­setning og kóði sem auð­kennir snjall­tækið sem sendi fyrir­spurnina. Stað­setning og auð­kenni eru notuð til að svara fyrir­spurnum rétt og í sam­hengi við fyrri fyrir­spurnir frá sama tæki. Hvorugt er tengt nafni, kenni­tölu eða öðrum persónu­einkennum notanda enda þarf enga inn­skráningu til að nota Emblu.

Notandi getur hvenær sem er eytt öllum gögnum í vörslu Mið­eindar sem tengjast snjall­tæki í hans umsjá með því að smella á þar til gerðan hnapp í stillingar­skjá Emblu á því snjall­tæki.

Ef notandi vill ekki að stað­setning háns sé send með fyrir­spurn, tíma­bundið eða varan­lega, getur hán stillt Emblu þannig í stillingar­skjá. Meðan sú stilling er virk getur Embla ekki svarað fyrir­spurnum sem byggja á stað­setningu.

Fyrirspurna­gögn verða ekki afhent úr hendi Mið­eindar til þriðja aðila nema lög áskilji slíka af­hendingu. Radd­greining Emblu nýtir Azure skýja­þjónustu og eru radd­gögn send frá snjall­tæki notanda, án upp­lýsinga um stað­setningu, í því skyni til net­þjóna Microsoft. Tal­gervill Emblu nýtir einnig skýja­þjónustu frá Microsoft og eru svör send í því skyni til net­þjóna Microsoft.

Net­þjónar Emblu eru hýstir hjá vinnslu­aðila innan Evrópska efnahags­svæðisins.

Hug­búnaður Emblu er öllum opinn til skoðunar á GitHub.

Ef spurningar vakna um persónu­vernd í tengslum við Emblu má senda þær í tölvu­pósti á personuvernd­@mideind.is, eða bréf­lega á ofan­greint heimilis­fang.