Persónuvernd
Embla er raddstýrt app fyrir iPhone og Android snjallsíma og spjaldtölvur. Framleiðandi þess og ábyrgðaraðili er Miðeind ehf., Fiskislóð 31, rými B/303, 101 Reykjavík.
Appið má sækja ókeypis í Apple App Store eða Android Play Store. Notandi getur hvenær sem er eytt appinu aftur út úr snjalltæki sínu, og er hvattur til að gera það ef hán fellir sig ekki við þá upplýsingavinnslu og þá skilmála sem hér er lýst.
Embla er ekki ætluð börnum yngri en 13 ára.
Embla tekur við ýmis konar fyrirspurnum á talaðri íslensku, sendir þær til miðlægs netþjóns og miðlar svari til notanda með rödd sinni.
Þegar notandi sækir Emblu eða ræsir appið í fyrsta sinn er hán spurt hvort Embla eigi að fá aðgang að hljóðnema snjalltækisins og upplýsingum um staðsetningu notandans. Appið fær þann aðgang aðeins að gefnu leyfi notandans.
Meðan Embla er í forgrunni á skjá snjalltækisins hlustar appið eftir því hvort notandinn segi “Hæ, Embla!”. Þá virkni má aftengja í stillingarskjá appsins. Sú hlustun hefur hvorki í för með sér að hljóðgögn séu vistuð né að þau séu send frá snjalltækinu. Þegar Embla greinir ávarpið “Hæ, Embla!”, eða þegar ýtt er á fyrirspurnarhnapp, byrjar appið að hlusta í gegn um hljóðnema snjalltækisins. Hlustun hættir þegar fyrirspurn er lokið. Gefið er til kynna á skjá tækisins, og með hljóðmerki, þegar hlustun hefst og þegar henni lýkur. Hljóðgögn sem berast meðan hlustað er eru send til netþjóns Emblu til úrvinnslu.
Fyrirspurnir sem berast til netþjóns Emblu eru geymdar á textaformi í gagnagrunni í allt að 30 daga, en þá er þeim eytt með sjálfvirkum hætti. Miðeind áskilur sér þó rétt til að vinna tölfræðilegar upplýsingar upp úr fyrirspurnagögnum og geyma þær upplýsingar lengur, í því skyni að endurbæta þjónustuna og greina hvernig hún er notuð.
Fyrirspurnum fylgir IP-tala, staðsetning og kóði sem auðkennir snjalltækið sem sendi fyrirspurnina. Staðsetning og auðkenni eru notuð til að svara fyrirspurnum rétt og í samhengi við fyrri fyrirspurnir frá sama tæki. Hvorugt er tengt nafni, kennitölu eða öðrum persónueinkennum notanda enda þarf enga innskráningu til að nota Emblu.
Notandi getur hvenær sem er eytt öllum gögnum í vörslu Miðeindar sem tengjast snjalltæki í hans umsjá með því að smella á þar til gerðan hnapp í stillingarskjá Emblu á því snjalltæki.
Ef notandi vill ekki að staðsetning háns sé send með fyrirspurn, tímabundið eða varanlega, getur hán stillt Emblu þannig í stillingarskjá. Meðan sú stilling er virk getur Embla ekki svarað fyrirspurnum sem byggja á staðsetningu.
Fyrirspurnagögn verða ekki afhent úr hendi Miðeindar til þriðja aðila nema lög áskilji slíka afhendingu. Raddgreining Emblu nýtir Azure skýjaþjónustu og eru raddgögn send frá snjalltæki notanda, án upplýsinga um staðsetningu, í því skyni til netþjóna Microsoft. Talgervill Emblu nýtir einnig skýjaþjónustu frá Microsoft og eru svör send í því skyni til netþjóna Microsoft.
Netþjónar Emblu eru hýstir hjá vinnsluaðila innan Evrópska efnahagssvæðisins.
Hugbúnaður Emblu er öllum opinn til skoðunar á GitHub.
Ef spurningar vakna um persónuvernd í tengslum við Emblu má senda þær í tölvupósti á personuvernd@mideind.is, eða bréflega á ofangreint heimilisfang.